news

Bleikar fréttir 11-15 október

15 Okt 2021

Góðan og gleðilegan bleikan föstudag !

Við erum væn og extra bleik í dag í tilefni dagsins J Bara gaman að því !

Við erum búin að vera uppátækjasöm í vikunni – nema hvað ! Lönguhópur föndraði haustmyndir úr laufblöðunum sem þau söfnuðu í síðustu viku og úr urðu ótrúlega fallegar myndir af trjám með haustlaufum. Börnin eru líka búin að vera að spila saman og æfa sig í að þekkja litina í sundur. Það gengur vel, enda snillingar upp til hópa.

Lúðuhópur skellti sér í Strætó og fór í sögustund á bókasafni Hafnarfjarðar. Hugrún á bókasafninu hefur svo skemmtilegan frásagnarstíl og myndunum er varpað upp á vegg svo allir sjái. Einskonar bíó fyrir börnin og það finnst engum leiðinlegt ! Í vikunni skellti hópurinn sér líka í fjöruferð sem var bæði blaut og hrikalega skemmtileg. Börnin voru aðeins að vaða og setjast í sjóinn, hlæja og skríkja og hafa gaman.

Laxar fóru líka í strætóferð í vikunni með Marhnútum af Suðurholti. Hóparnir heimsóttu skiptibókavitann við Hellisgerði þar sem börnin gáfu tvær barnabækur og græddu eina nýja með heim. Það verður gaman að glugga í hana ! Börnin tíndu svo laufblöð og köngla í poka og gæddu sér á heitu kakói og piparkökum sem vakti sláandi lukku. Það spillti líka ekki fyrir að veðrið var dásamlegt.

En talandi um veðrið – það hefur víst ekki farið framhjá neinum hversu mikið hefur rignt undanfarna daga. Við viljum því biðja ykkur að skella öllum útifötum í þvott í helgarfríinu og yfirfara allt heila klabbið og bæta svo á aukafötin í leiðinni J

Á fimmtudaginn breyttum við valinu á Vesturholti í tilraunaskyni og útbjuggum stöðvar sem börnin fengu að flakka á milli. Þetta gekk mjög vel og börnin voru glöð og einbeitt og djúpt sokkin í því að njóta. Börnin gátu valið um að fara út, leira, skapa úr allskonar efnivið í listakoti, spreyta sig á þrautabraut í salnum og leika með búdót.

Fleira var það ekki í bili

Góða helgi og bleikar kveðjur frá okkur á Vesturholti