Útivera: Í leikskólanum Vesturkoti fara allir krakkar út að leika einu sinni á dag. Við leyfum börnum að vera 1-2 daga inni eftir veikindi ef barn er að koma til baka eftir lengri veikindi. Það er mikilvægt að nemendur mæti hressir í leikskólann og séu tilbúnir til að taka þátt í þeim verkefnum sem við erum að bjóða upp á. Þess vega ítrekum við það ávallt til foreldra að börn séu heima amk 1-2 daga hitalaus og mæti svo hress í leikskólann.

Algengar sýkingar: Augnsýkingar geta verið tíðar í leikskólum þar sem nánd barna er mikil, þess vegna höfum við þá reglu hjá okkur að börn séu heima í einn sólarhring eftir að hafa fengið fyrsta skammtinn af augnmeðali við sýkingum. Það getur verið erfitt að hefta sýkingar ef börn eru að koma með sýkt augu í leikskólann.

Í leikskólanum gefum við ekki pensilín eða önnur lyf nema í undantekningar tilvikum.

Fatnaður barnanna: Það er mjög mikilvægt fyrir foreldra að muna eftir að merkja allan fatnað vel en þá eru meiri líkur á því að hann skili sér heim aftur til barnsins ef hann lendir óvart í hólf hjá öðrum börnum. Það er frekar erfitt fyrir starfsmenn að vita alltaf hver á hvað sem ekki er merkt. Einfalt ráð að kaupa borða með nafni barnsins og er töluverður sparnaður í stað þess að fatnaðurinn tínist.

Gott er fyrir foreldra að venja sig á að kíkja í þurrkskápa eða á ofn í fataklefa eftir fötum af sínu barni í lok dags en þá er fatnaðurinn til staðar og tilbúin fyrir nemandann næsta dag þegar verið er að fara út.

Þátttökuaðlögun: Við nýtum þátttökuaðlögun þegar börn eru að koma til okkar á yngri deildirnar en með því teljum við okkur ná betra sambandi og samstarfi við foreldra. Það er mikilvægt fyrir okkur og ykkur að við kynnumst vel en þá aukum við líkur á góðu samstarfi og trausti. Í okkar huga er traust foreldra til okkar mikilvægt og leggjum við grunninn að þessu trausti með þátttökuaðlögun barnanna.

Afmæli í leikskólanum: Þegar nemendur eiga afmæli er dagurinn þeirra gerður sérstakum með því að barnið er þjónn dagsins og fær að aðstoða eins og kostur er. Barnið velur sér afmælisdisk og glas til að borða með á matmálstímum. Barnið útbýr kórónu og nemendur leikskólans syngja fyrir afmælisbarnið.

Afmæli: Í elsta barnahópi leikskólans fara börn í sumum tilvikum að bjóða heim í afmæli. Við höfum þá reglu að þeir foreldrar sem setja afmælisboð í hólf barnanna hugi að því að bjóða öllum börnunum í hópnum eða öllum drengjum/stúlkum. Við viljum biðja foreldra að huga að því að skilja börn ekki útundan, við vinnum með vináttu í leikskólanum og viljum að börn upplifi sig ekki útundan úr barnahópnum.

Samskipti heimilis og skóla: Foreldrar eru alltaf velkomnir til okkar og viljum við fá upplýsingar um það strax ef við þurfum að bæta eitthvað hjá okkur og við skoðum vel hvað það er sem við þurfum að laga. Við erum líka þakklát þegar þið látið okkur vita þegar allt gengur vel og þið eruð sátt.