Leikskólinn Vesturkot er SMT skóli
Leikskólinn útskrifaðist sem sjálstæður SMT skóli 2. október 2015. En unnið hefur verið að því síðustu ár að innleiða SMT í leikskólanum með góðum árangri og byggir á PMTO sem er heildstæð stefna sem snýr að foreldrum og uppalendum. SMT (school management training) er kerfi til að draga úr og fyrirbyggja neikvæða hegðun og hegðunarfrávik í leik- og grunnskólum. Tilgangurinn er að skapa jákvætt andrúmsloft innan leikskólans. Aðferðin er innleidd í skólasamfélög til að fyrirbyggja, draga úr og stöðva hegðunarfrávik. Nemendum er mætt með samræmdum viðbrögðum alls starfsfólks þar sem áhersla er á að gefa jákvæðri hegðun gaum og almennt nálgast nemendur með jákvæðum hætti. Verkfæri aðferðarinnar eru skýr fyrirmæli, hvatning, mörk, tilfinningastjórn, eftirlit og samvinna milli heimilis og skóla.
Í leikskólanum notum við tákn sem við köllum "Bros" og fá börnin brosspjald frá starfsmönnum þegar þau eru að fara eftir fyrirmælum eða eru að bæta sig í einhverri ákveðinni hegðun. Brosunum söfnum við á sólir inni á hverri deild og þegar geislar sólarinnar eru fullur höldum við Sólarveislu. Þessar sólarveislur geta verið t.d. saltstangir, púðaveisla, vasaljósadagur, gönguferð, snakk, bíó í salnum, náttfatadagur ofl. Með brosunum gefa starfsmenn barninu hrós og beina athyglinni á jákvæðan hátt að því að barnið var að fara eftir fyrirmælum.
Við tökum skráningarvikur nokkrum sinnum yfir árið og þá skráum við þau hegðunarfrávik sem börnin sýna en tilgangurinn með því er að finna út lausnir á þeim hegðunarvanda sem börnin glíma við. Við skoðum þá líka hvort að það sé eitthvað sem við getum breytt í umhverfi barnanna eða okkar sem getur hjálpað barninu að draga úr óæskilegri hegðun.
Við leggjum upp með skýrar reglur sem við kennum nemendum okkar og leggjum áherslu á að starfsmönnum verði tamt að nota reglurnar í samskiptum sínum við nemendurna.
Við erum ákaflega stolt af þeim árangri sem við höfum náð í innleiðingu okkar á SMT og leggjum mikla áherslu á það við allt okkar starfsfólk að starfa eftir SMT.
SET úttekt fer fram einu sinni á ári í öllum SMT leikskólum.