Vinátta í Vesturkoti.
Í leikskólanum Vesturkoti er unnið með verkefni Barnaheilla Vinátta (Fri for mobberi). Verkefnið er forvarnarverkefni gegn einelti á vegum Barnaheilla - Save the Children á Íslandi og ætlað börnum í leikskólum. Efnið er þýtt og staðfært úr dönsku og nefnist á frummálinu Fri for mobberi og er þróað og gefið út af Red barnet - Save the Children og Mary Fonden í Danmörku.
Í verkefninu læra nemendur fjögur grunngildi: Umburðarlyndi, virðingu, umhyggju og hugrekki.
- Umburðarlyndi: Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og koma fram við alla af virðingu.
- Virðing: Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og virða mismunandi hátterni annarra.
- Umhyggja: Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.
- Hugrekki: Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.
Með verkefninu er gert ráð fyrir að þátttakendur tileinki sér þessi grunngildi og þau verði samofin öllu starfi og samskiptum í leikskólasamfélaginu. Í verkefninu er verkefni fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra (Uppl. fengnar úr Fróðleikshefti Vináttu)
Verkefnið gegnur út á að nemendur fá í leikskólann á hverju hausti til sín bangsann Blæ frá Ástralíu. Bangsinn kemur með litla hjálparbangsa, einn fyrir hvert barn sem er að vinna í verkefninu. Börnin geyma hjálparbangsana í leikskólanum og nota þá í Vináttustundum.
Vinátta í Vesturkoti - skýrsla um innleiðingu vináttuverkefnis Barnaheilla veturinn 2014 - 2015