Aðlögun er sá tími þegar barnið kynnist starfsmönnum, börnum og húsakynnum leikskólans. Með góðum aðlögunartíma aukast tengslin milli foreldra og starfsmanna og grunnur er lagður að áframhaldandi foreldrasamstarfi.
Aðlögun er höfð í stuttan tíma í byrjun og lengd dag frá degi þannig að barnið nái smám saman að kynnast starfsmönnum og nýju umhverfi, sem við teljum vera nauðsynlegt til að byggja upp öryggiskennd hjá barninu. Aðlögun tekur oftast fjóra til sex daga og lengri tíma ef þörf krefur.
Þessir dagar eru mjög mikilvægir fyrir barnið til að auðvelda því aðskilnaðinn við foreldrana og stuðla að vellíðan þess í leikskólanum. Aðlögunin er ekki einungis fyrir barnið, heldur einnig tækifæri fyrir foreldra til að kynnast starfsmönnum leikskólans, starfinu og öðrum foreldrum. Við vonumst til að foreldrar njóti þess að vera með okkur í leik og starfi á aðlögunartíma barnsins.
Á yngri deildum Vesturkots er stuðst við þátttökuaðlögun þar sem foreldri er með barninu í upphafi og dregur sig svo hægt og rólega til hliðar þegar líður á aðlögunartímabilið.
Á eldri deildum Vesturkot ser stuðst við aðlögun þar sem barnið byrjar á að koma í stutta heimsókn sem lengist svo á aðlögunartímabilinu og er foreldri mest allan tíman til hliðar.