Leikskólinn Vesturkot var opnaður þann 14. apríl árið 1994. Skólinn stendur á Hvaleyrarholtinu í Hafnarfirði. Víðáttan er mikil í nágrenni leikskólans og útsýnið er stórkostlegt. Keilir gnæfir við í suðri og Snæfellsjökullinn blasir við í vestri í allri sinni dýrð auk þess sem vel sést yfir höfuðborgarsvæðið. Stutt er í náttúruna þar sem úfið hraunið er við túnfótinn og örstutt er í fjöruna. Leikskólinn Vesturkot dregur nafn sitt af síðasta byggða bænum á Hvaleyrinni, Vesturkoti.

Alls dvelja að meðaltali 84 börn á aldrinum 18 mánaða til sex ára í leikskólanum yfir daginn og er boðið upp á breytilegan dvalartíma. Húsnæðið er 630 m2, þar af er leikrými 308 m2 og á lóð leikskólans hefur náttúran fengið að halda sér óbreytt að miklu leyti.

Í Vesturkoti eru fjórar deildir. Þar sem umhverfi skólans er óvenju víðsýnt eru deildirnar nefndar eftir höfuðáttunum fjórum. Deildirnar Norðurholt og Austurholt eru staðsettar í norðausturhluta skólans og dvelja þar yngstu börn leikskólans eða til að verða þriggja ára. Í suðvesturhluta leikskólans eru deildirnar Suðurholt og Vesturholt og eru þar eldri börn leikskólans eða frá aldrinum þriggja til sex ára.