Veikindi: Við gerum ráð fyrir að börn séu nægilega hress til að taka þátt í öllu starfi og þess vegna getum við ekki tekið á móti veiku barni eða barni sem er að veikjast. Ef barn veikist og fær hita, þarf það að dvelja heima þar til það hefur verið hitalaust í 1-2 sólarhringa. Fái barn smitandi sjúkdóm verður það að dvelja heima þar til smithætta er liðin hjá. Þetta er nauðsynleg ráðstöfun til að forðast útbreiðslu sjúkdóma í leikskólanum og sjálfsögð tillitsemi við önnur börn og starfsfólk. Innivera eftir veikindi miðast við einn dag og í samráði við starfsmenn. Við höldum börnum ekki inni til þess að koma í veg fyrir að þau veikist. Gott er fyrir starfsfólk leikskólans að fá upplýsingar um veikindi barnanna.

Ofnæmi/óþol: Ef barn er með fæðuóþol eða ofnæmi verða foreldrar/forráðamenn að skila inn læknisvottorði.

Augnsýking: Augnsýkingar geta verið tíðar í leikskólum þar sem nánd barna er mikil, þess vegna höfum við þá reglu hjá okkur að börn séu heima í einn sólarhring eftir að hafa fengið fyrsta skammtinn af augnmeðali við sýkingum. Það getur verið erfitt að hefta sýkingar ef börn eru að koma með sýkt augu í leikskólann.

Lús: Ef lús finnst er mikilvægt að upplýsa leikskólann og hefja meðferð strax. Lúsin er ekki vinsæll gestur og því mikilvægt að hún nái ekki að dreyfa sér.

Njálgur: Sama gildir um njálg ef hann finnst er mikilvægt að upplýsa leikskólann og hefja meðferð strax. Njálgur er einnig óvinnsæll gestur og því mikilvægt að hann nái ekki að dreyfa sér.

Lyfjagjöf: Ef börn þurfa að taka lyf er mikilvægt að haga lyfjagjöfinni þannig að hún fari fram heima fyrir. Kennarar leikskólans mega ekki gefa börnum lyf nema það sé bráðnauðsynlegt. Undantekning er þó gerð ef um astmapúst er að ræða.

Yfirlit yfir helstu smitsjúkdóma barna